Hjóla kringum landið til styrktar Blátt áfram
Mótorhjólaklúbburinn Lords and Ladies í Grindavík heldur svokallað „Toyrun“ 17. til 18. júní. Toyrun er alþjóðlegt fyrirbæri þar sem bifhjólafólk hjólar frá einum stað til annars. Hér á landi verður hjólað hringinn í kringum landið í samstarfi við Blátt áfram sem eru forvarnarsamtök gegn ofbeldi á börnum.
Hugmynd klúbbsins er að sameina hjólaklúbba landsins í söfnun fyrir samtökin. Vonir standa til að hver klúbbur safni í sínu héraði eða svæði. Nokkrir félagar Lords and Ladies ætla svo að hjóla hringinn um landið og safna saman áheitum annarra klúbba.
Útbúnar hafa verið nælur merktar Toyrun 2016 sem verða seldar til styrktar verkefninu.
Hringkeyrslan fer af stað frá Grindavík á hádegi 17. júni og áætlað að koma í mark um átta leitið að kvöldi þess 18. Öllum er velkomið að hjóla með, hvort sem er hluta af leiðinni eða allan hringinn en slíkt verður að skipuleggja í samstarfi við mótorhjólaklúbbinn Lords and Ladies.
Í tilkynningu um verkefnið segir að aðstandendur þess voni að sem flestir klúbbar verði með. Nánari upplýsingar má nálgast á vef Toyrun Ísland. Þar er einnig hægt að heita á bifhjólafólkið.