Hjarta fundið fyrir Helga Einar
Helgi Einar Harðarson hjartaþegi úr Grindavík fór til Svíþjóðar í dag þar sem hann mun ganga undir hjartaskiptaaðgerð. Helgi er kominn á skurðarborðið en ekki er enn vitað hvort sjálf hjartaskiptaaðgerðin sé hafin. Klukkan 11:30 í morgun kom kallið og var Helgi kominn í loftið klukkan 10 mínútur yfir eitt í dag.
Helgi Einar hefur beðið í um eitt ár eftir því að fá nýtt hjarta í annað sinn. Fyrir 15 árum síðan fór hann í hjartaskiptaaðgerð í Englandi og var þá annar Íslendingurinn til að fara í slíka aðgerð. Helgi er fyrsti Íslendingurinn sem gengst undir hjartaskiptaaðgerð í annað sinn. Hann hefur nú beðið í rúmt ár eftir nýja hjartanu, sem verður það þriðja sem hann gengur með. Hann mun einnig fá nýtt nýra samhliða hjartaskiptunum og mun því ganga með þrjú nýru.
Myndin: Helgi Einar með tíkina sína Liz. Helgi Einar var í áhrifamiklu viðtali við Tímarit Víkurfrétta sem kom út í apríl þar sem hann sagði frá lífsreynslu sinni. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.