Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjálmar verðlaunaðir á degi íslenskrar tungu
Þriðjudagur 16. nóvember 2010 kl. 18:08

Hjálmar verðlaunaðir á degi íslenskrar tungu

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2010 voru afhent á hátíðardagskrá í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Auk þess voru veittar tvær sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti Vigdísi Finnbogadóttur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2010. Þá fengu Hjálmar frá Keflavík viðurkenningu  fyrir stuðning við íslenska tungu. Einnig fékk Möguleikhúsið viðurkenningu í tilefni dagsins.

Hljómsveitin Hjálmar var stofnuð í Keflavík 2004 og lagði frá upphafi áherslu á íslenskt afbrigði af reggí-tónlist, svokallað lopapeysu-reggí. Hljómsveitin hefur starfað síðan, með nokkrum hléum og ýmsum mannabreytingum, en ávallt við miklar vinsældir meðal ungra sem aldinna sem þyrpst hafa á ótal hljómleika Hjálmanna eða sótt í hljómdiska þeirra sem orðnir eru sex talsins.

Frá upphafi hefur það verið eins og sjálfsagt mál að allir söngtextar sem frá Hjálmum koma séu á íslensku. Þannig hafa þeir lagt fram drjúgan skerf til að byggja upp þá ímynd að meðal framsækinna íslenskra rokk- og dægurtónlistarmanna sé íslenska sjálfsagt mál, eða ætti að vera það, þó alltof margir aðrir virðist af einhverjum ástæðum þeirrar skoðunar að enskan ein hæfi slíkri tónlist. Af þessum sökum er það mat ráðgjafarnefndarinnar að
hljómsveitin Hjálmar verðskuldi það eindregið að hljóta viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu á degi íslenskrar tungu.

Viðurkenningarhafar fengu listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024