Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjálmar styðja framtak Live 8
Laugardagur 2. júlí 2005 kl. 14:40

Hjálmar styðja framtak Live 8

Hjálmar og aðrir íslenskir tónlistarmenn héldu tónleika í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi undir nafninu Áttalíf, til að styðja framtak Live 8 tónleikanna sem hófust í hádeginu í dag og standa fram undir kvöld.

Með þessu vildu íslenskar hljómsveitir vera með í liði þeirra fjölmörgu sem stíga á svið í dag um allan heim. Ástæða þessa heimsviðburðar er að vekja athygli á skuldauppgjöf fátækustu ríkja heims, réttlátara viðskiptaumhverfi í þeirra þágu og aukinnar þróunaraðstoðar.

Þeir sem komu fram á tónleikunum í gærkvöldi, auk Hjálma voru Bubbi Morthens, Kimono, Leaves, Mínus, Ragnheiður Gröndal, Papar, Singapore Sling, Stuðmenn og Without Gravity.


Yfirlýsing tónlistarmannanna:

Við styðjum Live8!

Augu heimsins munu beinast að Edinborg næstu daga þar sem leiðtogar ríkustu landa heims koma saman til fundar og ræða málefni fátækustu ríkja heims.

Gríðarlegir hagsmunir eru í veði: á hverjum degi deyja 50 þúsund manns í Afríku úr hungri og sjúkdómum. Þetta samsvarar því að öll íslenska þjóðin létist á innan við einni viku.

Starfsbræður okkar Bono og Bob Geldof hafa skorið upp herör gegn fátækt í heiminum og nú um helgina verða tónleikar víða um heim til að þrýsta á leiðtoga ríkustu landanna að koma þeim fátækustu til hjálpar.

“Live8” tónleikarnir hafa það að markmiði að halda leiðtogunum við efnið og að þeir standi við gefin loforð um að gefa eftir skuldir fátækustu ríkjanna, brjóti niður óréttláta viðskiptahindranir svo Afríka geti selt vörur sínar og að tvöfalda þróunaraðstoð.

Við Íslendingar eigum og getum stutt þessi markmið – í verki - á alþjóðavettvangi.

Og það er á okkar sjálfra valdi að auka stuðning okkar við fátækustu ríkin og bjarga þannig þúsundum mannslífa. Bræðraþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa fyrir löngu staðið við fyrirheit á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna um að 0.7% þjóðarframleiðslu renni til þróunarsamvinnu.

Alþingi Íslendinga samþykkti fyrir tuttugu árum að þessu markmiði yrði náð innan sjö ára. Staðreyndirnar tala sínu máli: Þróunaraðstoð okkar er aðeins 0.21% samkvæmt fjárlögum 2005.

Er þetta sæmandi einni ríkustu þjóð í heimi?

Við undirritaðir tónlistarmenn teljum að svo sé ekki. Við lýsum hér með yfir stuðningi við markmið “Live Eight” og skorum á ríkisstjórn Íslands að standa við hátíðleg loforð sem gefin hafa verið á alþjóðlegum vettvangi um að 0.7% landsframleiðslu verði varið til að aðstoða fátækustu ríki heims eigi síðar en 2015.

Þeir sem vilja styrkja þetta framtak er bent á að heimsækja síðurnar:

http://www.live8live.com/
http://www.makepovertyhistory.org/

[email protected]


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024