Hjálmar Árnason gagnrýnir DV harðlega: hefur sagt blaðinu upp
Hjálmar Árnason alþingismaður fer hörðum orðum um ritstjórnarstefnu DV í grein á heimasíðu sinni sem ber yfirskriftina „DV-ekki meir, ekki meir“. Í greininni gagnrýnir Hjálmar mjög að árásarmaður Fannars Ólafssonar körfuboltamanns hafi verið nafngreindur í frétt DV um málið. Hjálmar segir í greininni að honum sé misboðið og að hann hafi tekið þá ákvörðun að segja blaðinu upp. Hér á eftir er grein Hjálmars sem birtist á heimasíðu hans.
DV – EKKI MEIR, EKKI MEIR
Á rúmri hálfri öld hefur maður kynnst ýmsu misjöfnu og hélt satt að segja að ég væri orðinn sæmilega sjóaður gagnvart ýmsum uppákomum. Nú bregður hins vegar svo við að mér í raun algjörlega misboðið. Svo mikið að ég frá og með deginum í dag óska eftir því að DV verði ekki borið inn á mitt heimili að óbreyttu. Fyrir fréttafíkil er þetta stór ákvörðun svo ástæður hljóta að vera ærnar.
Kornið, sem fyllir mælinn, er forsíða DV mánudaginn 9. febrúar. Hún er samsett úr tveimur fréttum.
„Hommi syngur fyrir Dani í Tyrklandi“
Hvaða máli skiptir kynhneigð söngvara? Íslendingurinn Tómas Þórðarson vann hug og hjörtu Dana með söng sínum. Svo hrifnir urðu frændir vorir af söng Landans að þeir völdu hann til að syngja fyrir sig í Eurovision í Tyrklandi. Sannarlega ánægjulegt fyrir Tómas og vissulega erum við stolt af honum. Hvernig DV sér ástæðu til að blanda kynhneigð Tómasar inn í málið – í fyrirsögn á forsíðu - segir líklega allt sem segja þarf um ritstjórnarstefnuna. Þar að baki eru einhverjar þær hugsanir sem ég einfaldlega skil ekki og sætti mig engan veginn við. Skilji enginn orð mín svo að með þeim sé verið að gera lítið úr hommum. Mér finnst einfaldlega kynhneigðin vera málinu óskyld. Það snýst um söng og söngvara..
„BLÓÐBAÐIÐ Í STAPANUM“
Öllu alvarlegri er umfjöllun DV um skelfilegan atburð í Stapanum um s.l. helgi. Ungum manni verður óhugnanlega á og slasar alvarlega eina körfuboltahetjuna. Sigurhátíð breytist í sorg og allir eru felmtri slegnir. Til allrar hamingju reynast áverkar minni en ætla mætti. Slysið er hins vegar orðið. Málið fer í eðlilegan farveg, læknismeðferð annars vegar og lögreglumál hins vegar. Samfélagið á Suðurnesjum er miður sín vegna atburðarins.
DV kýs að kynna blóðbað með fyrirsögn að sínum hætti, nafngreina hinn unga ólánsmann, tilgreina starfsgrein hans (eins og það skipti öllu að um pípara var að ræða) og klykkir svo út með því að kynda undir frekara blóðbað með því að slá því fram að Keflvíkingar séu í hefndarhug og safni liði til að láta Njarðvíkinga ekki komast upp með að skaða einn af sínum mönnum. Þvílíkt ábyrgðarleysi í ritstjórn.
Frásögn DV af þessum dapurlega atburði er í raun skólabókardæmi um það hvernig óheiðarleg blaðamennska getur orðið. Ritstjórn DV gæti lært mikið af hinum unga íþróttamanni sem fyrir árásinni varð. Hann finnur til samúðar með þeim er á hann réðist og telur um einstakan atburð að ræða. DV vill blása til múgæsingar. Fannar Ólafsson sýnir styrk hins þroskaða manns þar sem fyrirgefningunni er gefið rúm. Þó DV reyni að snúa þessi alvarlega máli á versta veg trúi ég að allir aðstandendur körfuboltans í Reykjanesbæ muni láta æsiblaðamennskuna sem vind um eyru þjóta. Sjálfur kæri ég mig ekki um að DV verði borið lengur inn á mitt heimili.