Hjallatún verður heilsdagsskóli
Málefni nýja leikskólans í Njarðvík, Hjallatúns, voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sl. þriðjudag. Skóla- og fræðsluráð hafði lagt til að skólinn yrði heilsdagsskóli, að uppsagnarfrestur á vistunartíma yrði 3 mánuðir og að opnunartímar skólans yrðu skoðaðir m.t.t. bættrar þjónustu. Bæjarráð samþykkti tillögurnar á fundi 16. nóvember sl. en bæjarstjórn samþykkti að vísa tillögu ráðsins um uppsagnarfrest aftur í bæjarráð en hinar tillögurnar voru samþykktar.
Kristmundur Ásmundsson (S) sagði að ef Hjallatún yrði heilsdagsskóli, sem talið væri mun betra fyrir börnin, þá yrði að endurskoða fyrirkomulag í hinum skólunum þar sem þjónusta skólanna yrði að vera sambærileg. Kristmundur mótmælti tillögu ráðsins um að lengja uppsagnarfrest úr einum mánuði í þrjá mánuði og sagði að það gæti komið sérstaklega illa niður á t.d. einstæðum mæðrum og efnaminna fólki sem væri í ótryggum vinnum. „Auðvitað myndi þetta skapa meiri stöðugleika fyrir reksturinn en ég tel að hagsmunir neytenda vegi þyngra“, sagði Kristmundur. Hann lagði til að tillögu um lengdan uppsagnarfrest yrði vísað í bæjarráð og var það samþykkt. Hvað varðar að endurskoða opnunartíma leikskólans, þ.e. starfsdaga, sumarlokanir o.fl., sagðist hann styðja þá tillögu því þjónusta leikskólans yrði að fara saman við hagsmuni atvinnulífsins.
Kristján Gunnarsson (S) tók undir með flokksbróður sínum og bætti við að það væri „skepnuskapur“ af hálfu stjórnvalda ef uppsagnarfrestur yrði lengdur í þrjá mánuði. Kristján sagðist einnig telja að það yrði íþyngjandi fyrir fólk ef einungis yrði boðið upp á heilsdagsvistun. „Fólk hefur kannski ekki þörf fyrir eða efni á heilsdagsvistun, en tekur samt plássið því annað er ekki laust“, sagði Kristján.
Ellert Eiríksson (D) sagði að heilsdagsvistun væri hugsað sem tilraun en í byrjun mun verða boðið upp á sveigjanlegan vistunartíma. „Ég held að þetta muni koma vel út en fólk sem er t.d. að bíða eftir heilsdagsplássi, en er með börnin sín á öðrum leikskóla, getur þá fært sig yfir á Hjallatún og þá losnar um leið pláss annars staðar fyrir börn sem ekki þurfa heilsdagspláss“, sagði Ellert. Hann taldi þarft verk að endurskoða opnunartíma og koma þar með betur til móts við íbúa. „Margir hér á svæðinu vinna vaktavinnu. Opnunartíminn 8-16 hentar því oft illa og fólk þarf þá oft að leyta til dagmæðra og ættingja til að fylla í eyðurnar. Ég tel því alls ekki óraunhæft að skoða betur hvort einn leikskóli geti haft annan opnunartíma en hinir og þjónusta íbúana betur. Mér finnst þetta góð tillaga hjá ráðinu og skref í að aðlaga okkur að raunverulegum aðstæðum“, sagði Ellert.
Björk Guðjónsdóttir (D) tók undir orð Ellerts og sagði þessar tillögur tvímælalaust vera leið inní nútímann. „Samkvæmt því sem ég kemst næst er auðveldara að fá starfsfólk á heilsdagsdeildir. Fólk mun geta fært sig á milli skóla eftir því hvort það er að sækjast eftir heil- eða hálfsdagsvistun. Mér finnst að við eigum að prófa þetta í einum skóla til að byrja með og endurskoða opnunartíma, þannig að íbúar geti verið sáttir við hann“, sagði Björk.