Hittu „fræga róna“ í þjóðhagfræðiferðalagi
Nemendur í Þjóðhagfræði (ÞJÓ 103) úr Fjölbrautarskóla Suðurnesja fóru í ferð sem er farin á hverri önn í áfanganum síðastliðinn fimmtudag, 14. apríl. Ferðin hófst fyrir utan skólann þar sem nemendur stigu upp í SBK langferðabíl þar sem förinni var heitið til höfuðstaðarins.
Fyrsta stopp var í Borgartúninu þar sem Hagstofan er til húsa. Anna Margrét Björnsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason tóku á móti nemendum. Þar fengu nemendur passlega langa kynningu á störfum Hagstofunnar og hvernig þau geta nýtt sér upplýsingarnar sem hún gefur út og birtir á heimasíðu sinni.
Næsta stopp var Seðlabankinn við Arnarhól. Stefán Jóhann Stefánsson tók á móti nemendum og fengu nemendur samlokur og gos við komuna. Södd og sæl settust þau niður til þess að hlýða á Stefán segja þeim frá störfum bankans.
Að lokum fengu nemendur smá frítíma í blíðskaparveðri í miðborginni. Áður en þeim var sleppt lausum í rúman hálftíma stilltu þau sér upp við Ingólf Arnarson á Arnarhóli fyrir hópmyndatöku. Þegar þau voru svo komin á hólinn kom í ljós að rónarnir í Spaugstofunni, þeir Bogi og Örvar, voru að taka upp senu fyrir næsta þátt. Nemendur fylgdust með og fengu þá til að vera með þeim á myndinni.
www.fss.is - þar er einnig hægt að sjá fleiri myndir úr ferðinni.
Mynd: Nemendur í FS stilla sér upp í myndatöku með Boga og Örvari við Arnarhól.