Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hitaveitan: Svör frá Norfolk væntanleg fljótlega
Fimmtudagur 6. apríl 2006 kl. 12:49

Hitaveitan: Svör frá Norfolk væntanleg fljótlega

Engin svör hafa enn borist frá Norfolk vegna bréfs Hitaveitu Suðurnesja við bréfi hermálayfirvalda þar sem samningi við HS um kaup á heitu vatni fyrir varnarvæðið er sagt upp. Það bréf barst fyrir viku til stjórnar HS og var því svarað um hæl þar sem tekið er fram að einföld tilkynnig af þessu tagi væri allsendis ófullnægjandi miðað við gildandi og löglegan samning aðila. Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, hefur verið staðfest að svarbréfið sé komið í hendur réttra aðila í Norfolk og von sé á svörum fljótlega.

Komið hefur fram að í samningnum er ákvæði þess efnis að Varnarliðið geti ekki sagt upp samningnum fyrirvaralaust með þessum hætti, heldur einungis dregið úr notkun sinni um 4% árlega, nema um annað sé sérstaklega samið. Því virðist vera einhver ágreiningur um túlkun á ákvæði þessu en 63 breytingar hafa verið settar inn í samninginn frá því hann var gerður árið 1980. Aðspurður segist Júlíus ekki eiga von á því að þetta mál þurfi að fara fyrir dómstóla til að fá úr þessu skorið, hann eigi frekar von á því að hægt verði að semja um málið. Það sé eindreginn vilji HS og verið sé við tala um einskonar þjónustulokasamning.
Miðað við 4% ákvæðið tæki það Varnarliðið áratugi að minnka heitavatnsnotkunina niður í ótilgreinda lágmarksnotkun þar sem minnkunin miðast við stöðuna hverju sinni.

„Við erum ekki að tala um að VL borgi fyrir notkun á heitu vatni í einhvern óratíma heldur semji um málið. Það var talað um það í samningum 1998 að í honum yrði klausa sem kvæði á um hvað þeir ættu að greiða ef þeir færu. Það vaðist hins vegar eitthvað fyrir VL og því dagaði þetta ákvæði uppi. Það er hins vegar fyrsta vers að fá þá til að viðurkenna að þetta gerðist ekki með þeim hætti sem þeir vilja núna", sagði Júlíus.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024