Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hitaveitan: Sala á heitu vatni og raforku til VL hefur dregist verulega saman
Mánudagur 3. apríl 2006 kl. 11:48

Hitaveitan: Sala á heitu vatni og raforku til VL hefur dregist verulega saman

Sala á heitu vatni til Varnarliðsins hefur dregist verulega saman á undanförnum árum, eða frá því að vera hátt í 17 þúsund mínútulítrar á ári árið 1993, niður í rúma 11 þúsund mínútulítra á síðasta ári. Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, mildar þessi jafni samdráttur að einhverju leiti þær búsifjar sem HS verður fyrir við brotthvarf Varnarliðsins en eins og VF hefur greint frá þá hefur VL sagt upp samningi við Hitaveituna um kaup á heitu vatni. Þá hefur sala á raforku til VL einnig dregist verulega saman.

Þrátt fyrir þennan samdrátt er VL stærsti einstaki viðskiptavinur Hitaveitu Suðurnesja. Fram hefur komið að í samningi þeim sem í gildi er á milli VL og HS, eru ákvæði þess efnis að ekki sé hægt að segja honum upp fyrirvaralaust. Forsvarsmenn HS segja að í samningnum séu skýr ákvæði sem kveði á um að VL geti einungis dregið úr vatnsnotkun um 4% á ári. Það sé því skoðun HS að VL verði í raun að semja sig frá samningnum. Í bréfi sem barst frá Norfolk fyrir helgi er samningnum sagt upp með 180 daga fyrirvara, sem sé í samræmi við ákvæði í upphaflega samningum frá 1980. Júlíus Jónsson segir að síðan þá hafi verið gerðar 63 breytingar á samningnum.
Hitaveitan hefur svarað bréfinu frá Norfolk og óskað eftir samningafundi um málið, þar sem einföld tilkynning af þessum toga sé ófullnægjandi miðað við gildandi samning.

Hvað raforkusöluna varðar, þá hefur hún einnig dregist verulega saman. Árið 1992 var VL að kaupa rúmlega 75 þúsund gígawattstundir en í fyrra var hún notkunin innan við 60 þúsund.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024