Hitaveita Suðurnesja leitar að heitu vatni í Eyjum
Djúpborun eftir heitu vatni hófst í Vestmannaeyjum síðdegis í dag, að sögn Morgunblaðsins á Netinu. Borað er á sprungusvæði austan Helgafells en það þykir líklegasti staðurinn til þess að koma niður á heitt vatn, að sögn Ívars Atlasonar, verkefnastjóra hjá Hitaveitu Suðurnesja hf. í Vestmannaeyjum.
Ívar segir í netútgáfu Morgunblaðsins að Jarðboranir sjái um borunina en bor félagsins, Sleipnir, verður í notkun allan sólarhringinn. Búist er við að borunin taki fimm til sex vikur.
Mynd: Frá Vestmannaeyjum. Þar er borað eftir heitu vatni á vegum Hitaveitu Suðurnesja hf.