Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hitaveita Suðurnesja hf. má rannsaka Brennisteinsfjöll
Sunnudagur 14. júlí 2002 kl. 20:28

Hitaveita Suðurnesja hf. má rannsaka Brennisteinsfjöll

Iðnaðarráðuneytið hefur veitt bæði Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum en hvorugt fyrirtækið fær forgang að nýtingu á svæðinu. Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja er ósáttur við þessa niðurstöðu og segir hana furðulega. Yfirborðsmælingar benda til þess að jarðhiti sé í Brennisteinsfjöllum, lágum fjallgarði milli Bláfjalla og Kleifarvatns. Hitaveita Suðurnesja sótti um leyfi til að rannsaka möguleika á gufuaflsvirkjun á svæðinu í apríl árið 2000 og fylgdi því eftir með rannsóknaráætlun. Í ágúst sama ár sótti Orkuveita Reykjavíkur einnig um rannsóknarleyfi á svæðinu en engin svör bárust frá ráðuneytinu þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir Hitaveitunnar.Í síðasta mánuði, rúmum tveimur árum síðar, svaraði iðnaðarráðuneytið loks með bréfi til beggja orkuveitnanna þar sem þeim er báðum veitt leyfi til að kanna virkjunarmöguleika á svæðinu. Hvorugt fyrirtækið fær forgang um nýtingarleyfi á svæðinu en ráðuneytið bendir á að umsækjendur geti sótt um sameiginlegt nýtingarleyfi. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja er ekki sáttur við þessa niðurstöðu.
Rannsóknirnar geta hæglega kostað um 500 miljónir króna. Júlíus segir vonlaust að bæði fyrirtækin verji slíkum fjárhæðum til rannsókna á sama svæðinu án þess að hafa vilyrði fyrir því að fá að nýta svæðið ef niðurstöðurnar reynast jákvæðar og skilyrði eru fyrir að minnsta kosti 70 megavatta gufuaflsvirkjun.
Hitaveita Suðurnesja er nú að kanna lagalega stöðu sína og viðbrögð við svarinu en iðnaðarráðuneytið hefur veitt fyrirtækjunum frest til 1. ágúst næstkomandi til að gera athugasemdir við rannsóknarleyfið, segir í frétt Ríkisútvarpsins í dag.



Myndin: Frá Brennisteinsfjöllum. Mynd/www.hraun.vedur.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024