Hitakerfi undir HS Orku vellinum við Hringbraut virkar ekki
Beiðni knattspyrnudeildar Keflavíkur um að láta leggja heimtaug með heitu vatni að HS Orku-vellinum við Hringbraut í Keflavík var tekin fyrir á síðasta fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar.
Beiðnin um heimtaugina er svo að nota megi upphitunarkerfi sem lagt var undir völlinn árið 2010 og hefur aldrei virkað sem skyldi. Kostnaðaráætlun sem að skrifstofa íþrótta- og tómstundamála hefur kallað eftir gerir ráð fyrir að kostnaðurinn sé um fimm milljónir króna.
„Ráðið er meðvitað um að tímabilið í knattspyrnu er sífellt að lengjast í báða enda og besti kosturinn er að hafa upphitun ef að við myndum lenda í mjög köldum vetri. Ráðið hefur á hinn bóginn ekki fjármagn á fjárhagsáætlun 2021 og þessi framkvæmd er ekki inni í fjárhagsramma fyrir árið 2022. Íþrótta- og tómstundaráð vill leggja áherslu á að HS Orku-völlurinn hefur alltaf verið með bestu grasvöllum landsins og ÍT vill koma sérstökum þökkum til þeirra starfsmanna sem hafa haldið utan um þau mál fyrir ráðið á undanförnum árum,“ segir í afgreiðslu ráðsins.