Hinn 11 ára Hafþór stöðvaði hjólaþjóf

-„Komdu með hjólið,“ kallaði Hafþór á meðan hann hljóp á eftir þjófnum

„Ég var að spila í tölvunni og var á leiðinni á klósettið þegar ég sá mann fyrir utan húsið mitt taka hjól,“ sagði hinn 11 ára gamli Hafþór Smári Sigurðsson sem hljóp upp manninn sem reyndi að stela hjóli móður hans.
„Ég ákvað að hlaupa á eftir honum og kallaði á hann að koma með hjólið,“ segir Hafþór, en hjólaþjófurinn ákvað svo að stöðva á næstu gatnamótum, stökk af hjólinu og hljóp í burtu, með Hafþór á eftir sér á sokkalistunum. Hafþór segist ekki hafa orðið hræddur nema þegar þjófurinn stökk af hjólinu en það hafi ekki varað lengi.

Móðir Hafþórs, Una Sigurðardóttir, notar hjólið mjög mikið og segist alsæl með drenginn. „Hann bjargaði mér alveg með því að fara á eftir hjólinu. Þegar ég hugsa þetta betur hefði þetta geta verið hættulegt fyrir hann, en þetta bjargaðist bara vel.“

Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Hafþór og Unu en þau eru í þætti vikunnar í kvöld í skemmtilegu spjalli út af atvikinu.Hafþór Smári ásamt móður sinni, Unu Sigurðardóttur, og hjólinu fræga.