Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hingað og ekki lengra - Umferðarátak á Suðurnesjum
Föstudagur 19. janúar 2007 kl. 18:10

Hingað og ekki lengra - Umferðarátak á Suðurnesjum

Hingað og ekki lengra er yfirskrift nýs umferðarátaks á Suðurnesjum sem hleypt var af stokkunum í dag.
Ökumenn á Suðurnesjum valda fleiri slysum en aðrir og nú hefur verið stofnað til átaks til að sporna við þeirri óhugnalegu staðreynd.

Margir aðilar hafa tekið höndum saman undir frumkvæði Hjálmars Árnasonar, þingmanns, til að taka á umferðarómenningunni en úr samantekt slysa í  umferðinni undanfarin 3 ár eru ökumenn á Suðurnesjum eigendur ökutækja í mun fleiri slysum en ökumenn annars staðar af landinu.

Meðal þátttakenda í átakinu eru m.a. Lögreglan á Suðurnesjum, sem mun herða eftirlit á götum úti og hvetja til grendargæslu, ökukennarar, sem kynntu nýjan samning sem ætlaður er ungum ökumönnum og foreldrum þeirra, -  sveitarfélögin, Sparisjóðurinn í Keflavík og fleiri.

Á fréttamannafundi í Kaffitári í dag, þar sem málið var kynnt, var einnig sagt frá fullkomnum ökuritum frá fyrirtækinu ND, sem eru settir í bíla og fylgjast þannig með aksturslagi ökumanna.

Þá tóku til máls þær Tinna Guðrún Lúðvíksdóttir, 19 ára Vogamær, sem sigraði í ökuleiknikeppni á vegum VÍS og ND á Íslandi en hún sagði að það væri erfitt að aka á löglegum hraða því aðrir ökumenn sýndu því ekki skilning og Áróra Gústafsdóttir sem tók kraftmikinn bíl af syni sínum eftir að hann var tekinn fyrir glæfraakstur.

Þá tók Steinþór Jónsson, formaður Samstöðu, til mál en Samstaða eru regnhlífasamtök baráttuhópa um allt land sem hafa fækkun umferðaslysa á Íslandi að markmiði. Hann fagnaði mjög þessu verkefni en Samstaða hefur nýlega kynnt framtíðarsýnina „Slysalaust Ísland“, en frekari upplýsingar um Samstöðu má finna á heimasíðunni nullsyn.is.

Allir aðilar lýstu yfir ánægju mað stefnuna sem hefur verið tekin og er vonandi að árangurinn láti ekki á sér standa.

 

Videofrétt með ítarlegum viðtölum má finna á VefV Víkurfrétta með því að smella hér

 

Vf-myndir/Þorgils- Mynd1: Aðstandendur átaksins á fundinum í dag. Mynd2: Hjálmar afhenti þeim Tinnu og Áróru blóm til viðurkenningar fyrir þeirra framlags til umferðaröryggis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024