Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Himinhátt atvinnuleysi á Suðurnesjum
Fimmtudagur 12. maí 2011 kl. 13:58

Himinhátt atvinnuleysi á Suðurnesjum

Atvinnuleysi á Suðurnesjum í apríl er himinhátt og langt fyrir ofan landsmeðaltal. Þannig voru 13,6 prósent Suðurnesjamanna án atvinnu í apríl meðal meðaltal atvinnuleysis á landsbyggðinni var 6,9 prósent og 8,7 prósent á höfuðborgarsvæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á vef Vinnumálastofnunar má finna skýrslu um atvinnuástandið í apríl og m.a. borið saman atvinnuástandið í dag og allt aftur til ársins 2002. Þá var atvinnuleysið á Suðurnesjum 2,2 prósent. Á tímabilinu 2002-2011 var atvinnuleysi minnst árið 2006 þegar það var 1,8 prósent í apríl. Atvinnuástandið var verst í fyrra þegar 14,6 prósent Suðurnesjamanna voru án vinnu í apríl. Í ár var atvinnuleysið prósentustigi minna eða 13,6 prósent.

Á bakvið allar þessar prósentutölur eru einstaklingar. Þeir eru á Suðurnesjum samtals 1583 sem voru án atvinnu í apríl. Vinnumálastofnun hefur flokkað atvinnulausa eftir sveitarfélögum. Flestir eru þeir án atvinnu í Reykjanesbæ eða 1116 talsins. Í Sandgerði voru 170 manns án vinnu í apríl, 112 í Grindavík, 100 í Garðinum og 85 í Vogum.

Athygli vekur að í öllum sveitarfélögum nema Grindavík eru karlar fjölmennari á atvinnuleysisskrá. Í Grindavík voru 66 konur atvinnulausar í apríl og 46 karlar.

Atvinnuleysi eftir lengd atvinnuleysis er greint í skýrslu Vinnumálastofnunar. Þar kemur m.a. fram að af þessum 1583 sem eru atvinnulausir hafa 201 verið án vinnu í yfir tvö ár. Stór hópur eða 150 manns er einnig búinn að vera án vinnu í 18-24 mánuði. Þá eru 341 sem hafa verið atvinnulausir í 6-9 mánuði. Samtals voru 37 atvinnulausir í apríl sem voru að koma inn nýir á atvinnuleysisskrá og höfðu verið án vinnu í 1-3 vikur.

Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ lýsti því í viðtali við Víkurfréttir í apríl að nokkuð væri um að atvinnulausir hafi flutt burtu úr bænum og eins hafi fjölgað fólki sem komið er á framfærslu sveitarfélagsins eftir að hafa fallið út af atvinnuleysisskrá.