Hilmar Þór með erindi við Háskólann í Aþenu
Þann 20. mars flutti Hilmar Þór Hilmarsson, Njarðvíkingur og prófessor við Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri erindi við hagfræðideild háskólans í Aþenu, The National and Kapodistrian University of Athens, en Hilmar er gestaprófessor þar á vormisseri 2018 http://en.econ.uoa.gr/staff/visiting-professors.html
Í erindinu fjallaði Hilmar um mismunandi efnahagsstefnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í kjölfar kreppunnar sem skall á 2008 og efnahagsframvinduna síðan. Í erindinu lagði Hilmar áherslu mismunandi stefnu landanna í ríkisfjármálum og gengismálum sem meðal annars tengist því að Eystrasaltsríkin og Finnland (eina landið meðal Norðurlandanna) tóku upp evruna sem gjaldmiðil. Hin fjögur Norðurlöndin hafa sinn eigin gjaldmiðil. Danmörk er undanþegin ákvæði Maastricht-sáttmálans um upptöku evru og Svíþjóð hefur tekið einhliða ákvörðun um að standa utan evrusvæðisins. Ísland og Noregur standa utan Evrópusambandsins og þar með utan myntbandalagsins. Hilmar fjallaði einnig um áhrif bankatengsla milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á efnahagsstefnuna, sem reyndist Eystrasaltsríkjunum erfið og gerði kreppuna þar bæði dýpri og lengri.
Í kjölfar erindisins spunnust upp töluverðar umræður um efnahagsstefnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, en einnig Grikklands sem bæði er aðildarríki Evrópusambandsins og á evrusvæðinu. Þó svolítið hafi rofað til í efahagsmálum Grikklands er atvinnuleysi þar enn um 22 prósent og hagvöxtur lítill eftir samfleytt samdráttarskeið í um 7 ár. Skuldir hins opinbera eru um 180 prósent af vergri landframleiðslu sem er mjög íþyngjandi fyrir hagkerfi Grikkja.
Hilmar er gestaprófessor við Háskólann í Aþenu í boði Andreas Papandreou prófessors við hagfræðideild Háskólans í Aþenu. Þess má geta að Andreas Papandreou er bróðir George Papandreou sem var forsætisráðherra Grikklands 2009 til 2011. George Papandreou er þriðji aðilinn í Papandreou fjölskyldunni í Grikklandi sem gengt hefur embætti forsætisráðherra Grikklands.