Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HÍ og Keilir semja um fagháskólanám í leikskólafræðum
Frá undirritun samstarfssamningsins. Frá vinstri: Kristín Karlsdóttir, dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði , Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis. MYND/Kristinn Ingvarsson
Laugardagur 13. júní 2020 kl. 14:08

HÍ og Keilir semja um fagháskólanám í leikskólafræðum

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, undirrituðu í gær samstarfssamning um verkaskiptingu vegna fagháskólanáms í leikskólafræðum sem til stendur að bjóða upp á frá og með næsta hausti á Suðurnesjum.
Samningurinn er gerður í kjölfar viljayfirlýsingar sem þessir aðilar undirrituðu ásamt sveitarfélögum á Suðurnesjum í vor. Meginmarkmiðið er að efla nám í leikskólafræðum og styðja við starfsemi leikskóla á Suðurnesjum með því að bjóða leiðbeinendum sem starfa þar upp á nám með vinnu. 


Um er að ræða 60 eininga nám í hagnýtri leikskólafræði á háskólastigi og er áætlað að það taki tvö ár. Námið er þannig byggt upp að allar þreyttar einingar nýtast þátttakendum til áframhaldandi náms til diplómagráðu eða B.Ed.-gráðu. Námið er hugsað fyrir þau sem uppfylla skilyrði um undanþágu til háskólanáms og þau sem hafa lokið leikskólaliðabrú eða sambærilegu námi. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Deild kennslu- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands ber faglega ábyrgð á náminu en stærstur hluti þess mun fara fram á vettvangi Keilis sem leggur til kennslu- og vinnuaðstöðu fyrir kennara og nemendur og annast jafnframt þjónustu við báða hópa. Sérstakt þriggja manna fagráð fulltrúa Háskóla Íslands og Keilis mun hafa umsjón með framkvæmd námsins en það mun jafnframt eiga náið samstarf við sveitarfélög á Suðurnesjum.
Um er að ræða átaksverkefni til að efla menntun starfsfólks leikskóla á Suðurnesjum og gildir samstarfssamningurinn til tveggja ára. Sem fyrr segir standa vonir til að fyrstu nemendurnir hefji nám á Suðurnesjum strax í haust.