Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Heyrnarmæla nýbura á Suðurnesjum á morgun
Þriðjudagur 16. febrúar 2010 kl. 22:23

Heyrnarmæla nýbura á Suðurnesjum á morgun

Starfsmaður frá Heyrnar- og talmeinastöðinni verður á heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Reykjanesbæ á morgun að heyrnarmæla nýbura. Þessi þjónusta hefur staðið foreldrum barna sem fæðast á HSS til boða frá því á síðasta sumri.
 

Á föstudögum eru opnir tímar á Heyrnar- og talameinastöðinni, Háaleitisbraut 1 frá kl. 12:30 – 14:30 og þarf ekki að panta tíma fyrirfram.  Ef foreldrar vilja koma á öðrum tímum er hægt að panta tíma í síma 581 3855.  Frá því mælingar hófust á Suðurnesjum hafa foreldrar rúmlega tuttugu barna komið með börn sín til heyrnarmælingar.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við viljum ná að heyrnarmæla sem flest börn og því verður starfsmaður okkar á HSS á morgun.  Foreldrar tæplega 150 barna hafa fengið bréf þar sem þeim er boðið að koma með börn sín til heyrnarmælinga.  Mælingin tekur stutta stund og best að börnin séu sofandi,“ segir Guðrún Gísladóttir hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni. „Í hverjum árgangi má gera ráð fyrir því að um 10 börn séu heyrnarskert og er mikilvægt að greina þau sem fyrst helst á fyrstu 3 mánuðum lífs þeirra svo hægt sé að hefja meðhöndlun með heyrnartækjum,“ segir Guðrún.
 

Frá því í apríl 2007 hafa börn sem fæðast á Landsspítala háskólasjúkrahúsi verið heyrnarmæld og voru 95% allra barna sem fæddust þar í fyrra heyrnarmæld af þeim reyndust 3 heyrnarskert.  Meðalaldur barna sem greinast heyrnarskert hefur verið tæplega 5 ára.


„Eigi barn að hafa möguleika á eðlilegum málþroska er mikilvægt að heyrnarskerðingin greinist sem fyrst helst áður en barnið hefur náð sex mánaða aldri.  Fyrsta aldursárið er mikilvægtt þroskatímabil þegar kemur að máltöku barna.  Það er mjög erfitt að skynja eða geta sér til um hvort lítið barn er með skerta heyrn.  Þess vegna greinist heyrnarskerðing hjá börnum oft seint. Í flestum tilfellum eru foreldrar heyrnarskertra barna eðlilega heyrandi,“ segir Guðrún.
 

Guðrún segir mikilvægt að heyrnarmæla börn vegna þess að á fysta aldursári er heyrnin mjög mikilvæt til að safna upplýsingum sem síðan verða undirstaða málþroska. „Við notum heyrnina til að hafa samskipti við annað fólk og til að staðsetja okkur í rými,“ segir Guðrún. Hún segir það einfalda, sársaukalausa og áreiðanlega aðferð sem þau nota til að mæla heyrn nýfæddra barna
 

Heyrnarmælingin er foreldrum að kostnaðarlausu. „Þeir foreldrar sem ekki fengu bréf frá okkur eða komast ekki með börn sín á morgun, miðvikudag, á HSS eru eindregið hvattir til að koma við á Heyrnar- og talmeinastöðinni í næstu ferð til Reykjavíkur.  Mælingin tekur að öllu jöfnu innan við 5 mínútur,“ segir Guðrún Gísladóttir framkvæmdastjóri hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni.



Mynd: Nýársbarnið á Suðurnesjum 2010.