Hert eftirlit á landamærum
Í dag hefst námskeið í Keflavík á vegum Lögregluskóla ríkisins. Námskeiðið er fyrir alla löggæslumenn í landinu sem sinna landamæraeftirliti.Í september og október verða haldin fjögur slík námskeið en markmið þeirra er að tryggja að nauðsynleg þekking sé til staðar á landamærastöðvum á Íslandi svo unnt sé að annast persónueftirlit, samkvæmt Schengen samkomulaginu. Á námskeiðunum í haust fá um 140 starfsmenn lögreglu, tollgæslu og Landhelgisgæslu Íslands sérstaka verklega þjálfun og fræðslu um persónueftirlit á landamærum. Þar af koma 60 löggæslumenn frá Keflavíkurflugvelli og 15 frá Keflavík.Kennsla og verkleg þjálfun er í höndum fjögurra bandarískra sérfræðinga í landamæraeftirliti og fölsuðum skilríkjum frá Innflytjendastofnun Bandaríkjanna (INS). Er hér um að ræða samvinnu á milli íslenskra og bandarískra löggæsluyfirvalda sem Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra stofnaði til á síðasta ári og felst m.a. í að undirstofnanir bandaríska dómsmálaráðuneytisins, alríkislögreglan FBI og INS, hafa boðið íslenskum lögreglumönnum fræðslu og þjálfun á sérhæfðum sviðum löggæslunnar.„Nauðsynlegt er að íslenskir landamæraverðir fái, til jafns við starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum markvissa þjálfun sem nýst getur þeim við persónueftirlit á landamærum. Markmiðið er m.ö.o. að tryggja það að nauðsynleg þekking sé til staðar á landamærastöðvum á Íslandi svo unnt sé að annast persónueftirlit með þeim hætti sem skylt er samkvæmt Schengen samningnum“, sagði Sólveig að þessu tilefni.Að sögn Jóhanns Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, hefur landamæragæsla hingað til verið á höndum tollgæslunnar en með Schengen samkomulaginu verður hún formlega á ábyrgð lögreglu. „Þetta er samvinnuverkefni tollgæslu og lögreglu. Vegabréfseftirlit verður virkara og færist inní landið. Þar sem aðilar utan Schengen svæðisins koma nær eingöngu inní landið um Keflavíkurflugvöll, er nauðsynlegt að tollverðir og lögreglumenn þar séu vel þjálfaðir á þessu sviði“, segir Jóhann.