Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Herstöðvaandstæðingar skoðuðu herstöðina án vandræða
Sunnudagur 1. október 2006 kl. 15:41

Herstöðvaandstæðingar skoðuðu herstöðina án vandræða

Herstöðvaandstæðingar fjölmenntu á Keflavíkurflugvöll í dag með þau Steingrím J. Sigfússon alþingismann, Stefán Pálsson, formann herstöðvaandstæðinga og Birnu Þórðardóttur í fararbroddi. Um 70 herstöðvaandstæðingar mættu í skoðunarferðina sem naut leiðsagnar frá Leiðsögumönnum Reykjaness.

Ekinn var stór hringur um svæðið og áð í einu íbúðahverfinu þar sem hópurinn kom saman útivið, andaði að sér fersku Suðurnesjalofti, og söng baráttusöngva herstöðvaandstæðinga ásamt því að hrópa nýtt slagorð Samtaka herstöðvaandstæðinga sem er: Ísland úr NATO, herinn burt frá Írak.

Lögreglan fylgdist með að allt færi vel fram. Hjarta lögreglumanna tók kipp þegar Birna Þórðardóttir tók sig til og hljóp af stað með íslenskan fána frá hópnum, hún kom hins vegar jafn harðan til baka aftur, en sjónvarpsmyndir af Birnu með íslenska fánann við Rockville á Miðnesheiði í lok níunda áratugar síðustu aldar eru frægar og hafa verið sýndar oft síðustu daga í fréttatímum.

Mynd: Táknræn mynd frá Keflavíkurflugvelli í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024