Herra Rokk í Hljómahöllina
Gerð styttu af Rúnari Júlíussyni, rokkara Íslands sem lést í byrjun desember sl., er hafin og hófst reyndar rétt fyrir andlát hans. Það er nafni hans, listamaðurinn og lífskúnsterinn Rúnar Hart sem hafði lengi dreymt um að gera styttu af nafna sínum og hann vill sjá styttuna í Hljómahöllinni sem er í byggingu.
„Ég nefndi þetta fyrst við Rúnar fyrir um áratug síðan og reyndar einnig við Erling Björnsson um að gera styttu af Hljómadrengjunum. Þeir tóku vel í það en það gerðist ekkert fyrr en í haust þegar ég hitti nafna minn við bæjarskrifstofurnar sem þá var að koma af fundi um Hljómahöllina. Ég rifjaði upp spjall okkar og spurði hvort ekki væri málið að gera styttu af honum. Rúnar tók vel í það og eftir nokkrar tilraunir til að hittast kom hann til mín sunnudaginn 30. nóvember eða nokkrum dögum fyrir andlátið. Við hófum þá þessa vinnu og ég fann að hann var mjög sáttur við að það yrði gerð stytta af honum. Ég tók af honum myndir og mældi hann út og svo ætluðum við að hittast aftur sem við því miður náðum ekki,“ segir Rúnar Hart.
Rúnar Hart hefur rætt þetta mál við fjölskyldu rokkkóngsins sem hefur tekið vel í málið.
Ekki hefur gengið frá fjármögnun vegna kostnaðs við styttugerðina en Rúnar Hart vonast til að það fái viðeigandi skilning á góðum stöðum. Þá ætlar Rúnar Hart að taka bíla í þrif til að hafa upp í kostnað við gerð styttunnar.
Mynd: Rúnar Hart er byrjaður vinnu við styttuna af Herra Rokk. Víkurfréttamynd: Ellert Grétarsson