„Hermenn streyma að úr öllum áttum“
Nú þegar stríðsógn vofir yfir heiminum og spenna er að aukast í arabalöndum, ásamt því sem Bandaríkjamenn eru komnir á mjög hátt viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar, er við öllu að búast. Það verða því að teljast eðlileg viðbrögð vegfaranda sem setti sig í samband við Víkurfréttir í hádeginu og tilkynnti um mikinn viðbúnað hersins á Keflavíkurflugvelli við Aðalhlið vallarins.„Hermenn streyma að úr öllum áttum“, var það sem hann sagði við blaðamann í símann og greindi jafnframt frá því að fjölmargir bílar væru stopp ofan við hliðið. Ekki var um annað að ræða en að kanna viðbúnaðinn, enda stórfrétt í loftinu! Nema hvað, þegar ljósmyndari var kominn á vettvang kom í ljós hvað var um að vera. Hópur hermanna var mættur til myndatöku við skiltið sem á stendur NATO BASE, Keflavík Naval Airstation. Okkar manni þótti flottara að hafa einnig skilið AÐALHLIÐ með á myndinni. Verði ykkur að góðu!