Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Laugardagur 3. mars 2001 kl. 02:00

Hermenn komu í veg fyrir veðurathuganir



Mikilvægar veðurathuganir féllu niður á Keflavíkurflugvelli í fyrradag þegar bandaríski herinn meinaði íslenskum veðurathugunarmönnum að sinna lögbundnu öryggishlutverki sínu í háloftamælingum. Yfirmaður á Veðurstofu Íslands segir málið alvarlegt og hefur veðurstofustjóri sent formlega kvörtun til varnarliðsins. Þetta kemur fram á visir.isHeræfingin spillti
Tvisvar á sólarhing eru sendir upp belgir frá Keflavíkurflugvelli og er tilgangur þess að kanna sviptivinda og fleira tengt veðurfræði í háloftunum. Mælingar þessa þykja sérlega mikilvægar, ekki bara fyrir Ísland heldur heimsbyggðina alla, enda um hlekk í alþjóðlegri veðrakeðju að ræða. Þegar íslensku veðurathugunarmennirnir hugðust sleppa belgjunum í hádeginu í fyrradag, bar hins vegar svo við að bandaríski herinn meinaði þeim um það og urðu þeir frá að hverfa. Ástæðan var yfirstandandi heræfing.
Einstætt tilvik
Torfi Karl Antonsson sér um samskiptin við Keflavíkurflugvöll fyrir Veðurstofu Íslands. Hann segir atvikið einstætt. ,,Ég get staðfest að mönnunum var meinaður aðgangur að því húsnæði sem við verðum að nota við þessar mælingar og þetta er litið alvarlegum augum. Mælingarnar eru á vegum Alþjóða flugmálastofnunarinnar og það er slæmt að þær falli niður. Sérstaklega eins og veðrið var þennan dag þ.e.a.s. frostrigning og ísing. Það er bagalegt að þetta skyldi hafa komið fyrir. Við erum að tala um mjög mikilvægt öryggistæki," segir Torfi Karl.
Að sögn hans er ekki vitað til að æfingar hersins og veðurathuganir hafi áður skarast með þessum hætti. Strangt til tekið hafði herinn enga heimild til að grípa frammí fyrir mælingamönnunum og hefur Veðurstofan ákveðið að bregðast við atvikinu. ,,Ég veit ekki annað en að veðurstofustjóri hafi haft samband við þá þarna suður frá og komið formlegum athugasemdum á framfæri," segir Torfi Karl. ,,Það er raunverulega verið að grípa frammí fyrir okkar lögbundna eftirlitshlutverki."
Boðskiptavandamál
Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Varnarliðsins hafði ekki heyrt um málið þegar blaðið bar þetta undir hann í gær. Hann sagði það þó rétt að reglubundnar heræfingar hafi farið fram undafarna daga og liður í þeim æfingum væri að loka af það svæði þar sem verðurmælingarnar fara fram. Engum væri hleypt um svæðið nema með sérstöku leyfi og svo virtist sem varðmenn á svæðinu hafi af einhverjum ástæðum ekki fengið boð um að hleypa veðurstofunni um svæðið. Slík boðskiptavandamál kæmu því miður annað slagið upp. Þetta mál yrði eflaust kannað og yfir það farið þegar menn gerðu upp þessa æfingu.
Dagur náði ekki í veðurstofustjóra vegna málsins í gær.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024