Herkúles hervél í hættu í háloftunum - lenti í Keflavík með tvo bilaða hreyfla
Litlu mátti muna að hættuástand skapaðist þegar bilun kom upp í tveimur hreyflum af fjórum í bandarískri Herkúles herflugvél þegar hún var skammt frá Íslandi á leiðinni til Englands. Hervélin lenti í Keflavík á sjöunda tímanum og gekk lendingin að óskum með þrjá hreyfla í gangi en strax við lendingu var slökkt á öðrum hreyfli.
Vélin var á leiðinni frá Bandaríkjunum til Englands með viðkomu á herflugvelli þar en þaðan átti leið hennar að liggja til Afganistan. „Það kom eldsneytisleki á annan hreyfilinn og við urðum að slökkva á honum og ákváðum að lenda til að gera við hann. Skömmu seinna ofhitnaði annar hreyfill á hinum vængnum og við þraukuðum með hann í gangi alveg að lendingu því hún fer ekki langt vélin á tveimur hreyflum svona þung. Það var því orðin veruleg hætta,“ sagði flugstjóri vélarinnar við Víkurfréttir, rétt eftir lendingu í Keflavík á sjöunda tímanum í kvöld.Tuttugu hermenn voru um borð í vélinni. Lending tafðist aðeins þar sem flugvélin flaug mun hægar síðasta spottann til Keflavíkur vegna þessara bilana.
Strax eftir lendingu fóru tæknimenn vélarinnar að huga að bilununum. Þeir sögðu að hægt væri að gera við hreyfilinn vinstra megin sem ofhitnaði en fá þyrfti nýja vélarhluta í hinn hreyfilinn. Þeir verða sendir frá herstöð þeirra í Englandi. Það er því ljóst að Kanarnir verða á Íslandi í 2-3 daga. Þeir sútuðu það ekki, brostu bara og voru komnir með ferðatöskurnar út og settu upp sólgleraugu í blíðunni í Keflavík. Á Herkúlesvélinn má sjá mynd af fugli og merkingunni „Team Shadow - we own the night“. Þetta er því kannski skuggaliðið frá Bandaríkjunum sem ætlar sér að eigna sér sumarnótt á Íslandi.
Hér má sjá merki sveitarinnar, „Team shadow“ - We own the night!
Hugað var strax að viðgerð á hreyflunum. VF-myndir/pket.