Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Herinn lokar á Traffic
Þriðjudagur 9. ágúst 2005 kl. 12:41

Herinn lokar á Traffic

Bandarískum hermönnum uppi á Keflavíkurflugvelli hefur verið bannað af æðstu stjórn hersins hér á landi að fara á skemmtistaðinn Traffic í Reykjanesbæ. Þetta staðfestir Chris Usselman, hjá upplýsingaskrifstofu Varnarliðsins.

Ástæður fyrir banninu eru þær að hermenn uppi á Keflavíkurflugvelli hafa lent í of mörgum „vandamálum“ á skemmtistaðnum og bendir Usselman á stungumálið sem átti sér stað aðfararnótt laugardags þegar varnarliðsmaður var stunginn fyrir utan Traffic.

Jósep Þorbjörnsson, eigandi skemmtistaðarins Traffic, fékk sent bréf frá æðstu stjórn hersins á Keflavíkurflugvelli þar sem honum var tjáð að skemmtistaður hans væri á bannlista hjá bandaríska hernum þar til 20. september. Ekki kom þó fram í bréfinu að banninu yrði aflétt þann 20. september heldur mun stjórn hersins endurskoða ákvörðun sína þá. Ástæður sem gefnar eru í bréfinu sem hann fékk sent eru þær að hermenn hafi verið fórnarlömb ýmissa árása upp á síðkastið og var tekið sem dæmi stungumálið fyrrnefnda.

Yfirmaður flotastöðvar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli skrifar undir bréfið og segir hann að rannsókn fari af stað innan hersins hvað skemmtistaðinn og líkamsárásir á hermenn varða. Kemur það fram í bréfinu að ef niðurstaða rannsóknarinnar verður sú að hermönnum stafi hætta af staðnum muni eiganda staðarins vera boðið í áheyrn hjá bandaríska hernum þar sem hann getur komið sínum skoðunum á framfæri. Eigandi staðarins fær einnig að leggja fram sönnunargögn máli sínu til stuðnings. Það kemur einnig fram í bréfinu að yfirmaður flotastöðvarinnar geti, eftir áheyrn eiganda staðarins, sett skemmtistaðinn á bannlista um óákveðin tíma.

Jósep er engan veginn sáttur við þessar aðgerðir hersins og telur það ósanngjarnt að hermönnum sé ekki leyfilegt að heimsækja staðinn hans en fái að heimsækja annan bar sem er aðeins 40 metrum frá Traffic. „Á föstudagskvöldum er hér allt fullt af könum og ekki koma þeir hingað ef þeim líður illa hér?“ sagði Jósep í samtali við Víkurfréttir.

„Varnarliðsmenn hafa ávallt verið til friðs hér inni fyrir utan kannski smá pústra eins og gengur og gerist á skemmtistöðum en vel flest atvik hvað þá varðar hafa átt sér stað fyrir utan staðinn,“ segir Jósep. Hann bendir einnig á að stungumálið síðustu helgi hafi átt sér stað fyrir utan staðinn, mitt á milli Traffic og Paddy’s. „Ég er með lögfræðing í málinu og við munum svara hernum því þetta er algjörlega óásættanlegt,“ sagði Jósep.

Karl Hermannson, yfirlögregluþjónn í Keflavík, sagði í samtali við Víkurfréttir að Traffic væri vinsæll staður þar sem mikið af ungu fólki kemur saman og eins og gefur að skilja þá koma upp fleiri vandamál í kringum þá staði. „Það er erfitt að kenna veitingamönnunum um en það er kannski spurning með opnunartímann og hvort hægt sé að breyta forminu á rekstrinum hvað hann varðar,“ sagði Karl. „Við erum að skoða skemmtanalífið hér í bænum og átta okkur á munstri þess og hvort að það sé tenging á milli opnunartíma og þeirra tilvika sem koma upp á þessum stöðum.“

Eitt er þó víst að skemmtistaðurinn Traffic, sem ávallt hefur verið þéttsetinn varnarliðsmönnum á föstudagskvöldum, mun verða fyrir einhverju tekjutapi. Jósep Þorbjörnsson, eigandi Traffic, sagði þó í samtali við Víkurfréttir að föstudagskvöldin myndu í framtíðinni höfða til Íslendinga.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024