Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Herinn að fara:
Miðvikudagur 15. mars 2006 kl. 18:43

Herinn að fara: "Áfall, en mörg tækifæri" segir Kristján Gunnarsson

Orrustuþotur og björgunarþyrlur Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli verða á bak og burt fyrir lok september á þessu ári, en bandarísk stjórnvöld tilkynntu Geir H. Haarde, utanríkisráðherra þessa ákvörðun í dag.

Verulega mun draga úr umsvifum hersins á Keflavíkurflugvelli, en Bandaríkjamenn kveðast þó ætla að virða ríkjanna frá 1951 og Norður Atlantshafssáttmálann og leggur til að viðræður milli landanna haldi áfram sem fyrst um framhald varnarsamstarfsins. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að viðræðum sé hraðað því að brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan í varnarmálum.

Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, sagði í samtali við Víkurfréttir í dag að þessar fréttir væru mikið áfall fyrir skjólstæðinga hans og aðra starfsmenn á Vellinum. Um 600 Íslendingar gætu misst vinnuna, en nú þurfi að líta fram á veginn.

"Ég var að ræða við Guðbrand Einarsson hjá Verslunarmannafélaginu í dag og okkur fannst þetta vera eins og andlátsfregn langveiks ættingja sem er hvíldinni feginn, en maður mun samt hugsa til hans með söknuði. Við höfum verið að bíða eftir skýrum svörum í mörg ár og nú má svo sannarlega segja að við höfum fengið svarið svo um munar."

Kristján segir að tækifæri felist engu að síður í brotthvarfi hersins. "Það eru mörg tækifæri upp á flugvellinum, en nú má ekki dragast að fara í atvinnuuppbyggingu.  Nú er kominn tími til að leggja pólitískt þras á hilluna og vinna hratt."

Íslensk stjórnvöld harma þessa ákvörðun bandaríkjastjórnar segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Eins og fram hefur komið hafa þau lagt fram ítarlegar tillögur um aukna þátttöku í rekstri Keflavíkurflugvallar í ljósi aukinnar borgaralegrar umferðar um völlinn, sem og þátttöku í rekstri þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins.

Utanríkisráðherra hefur óskað eftir að koma á fund utanríkismálanefndar sem fyrst vegna málsins og einnig að flytja Alþingi munnlega skýrslu um það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024