Hérastubbur bakari ósáttur við Framkvæmdanefnd Grindavíkur
Fleiri taka undir með Hérastubbi
Sigurður Enoksson, eigandi bakarísins Hérastubbur bakari í Grindavík, sendi fulltrúum Framkvæmdanefndar Grindavíkur tóninn á Facebook í gær þar sem hann tók fram að Hérastubbur bakarí og fleiri lítil og meðalstór fyrirtæki í Grindavík vilja að ríkið kaupi húsnæði fyrirtækjanna.
Hann segir jafnframt í færslunni að á fundi Grindvíkinga með framkvæmdanefndinni í gær hafi fulltrúi nefndarinnar sagst ekki hafa heyrt þessa ósk áður en nú eru liðnir átta mánuðir frá því að Grindvíkingum hafi verið gert að yfirgefa bæinn vegna náttúruhamfara.
Færsla Hérastubbs bakara hljóðar svona:
„Vill taka fram að Herastubbur Bakarí ásamt mörgum öðrum litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Grindavík viljum uppkaup á okkar húsnæði. Vill bara benda þessari Framkvæmdanefnd Grindavíkur. Árni Þór Sigurðsson formaður,Guðný Sverrisdóttir og Gunnar Einarsson á þetta því fulltrúí þeirra sagðist ekki hafa heyrt þetta áður á fundi í Grindavík í dag miðvikudag 10 júlí. 8 mánuðir síðan við rekin úr Grindavík.
Er þetta bara í lagi? Hefur verið út um allt hvað við viljum. En við fáum þetta ekki.
Veit vel hve allir eru orðnir þreyttir á okkur en hvað myndu þið sjálf gera til að berjast fyrir ykkar eigum??
Ást og friður“
Fleiri taka til máls á spjallþræðinum og eru sammála Sigurði sem bætti við:
„Er einhver þöggun í gangi hjá bæjaryfirvöldum?? Þau eru greinilega ekki í okkar liði. Til hvers er verið að borga einhverju atvinnuteymi peninga ef það er ekki að vinna fyrir meirihluta fyrirtækja í Grindavík?? Erum dregin á asnaeyrunum endalaust og þau verða bara síðari og síðari,“ sagði Hérastubbur bakari jafnframt.