Her- og flugminjasafn í Rockville?
Her- og flugminjasafn verður sett upp í Rockville á Miðnesheiði ef hugmyndir áhugamanna um slíkt verkefni ná fram að ganga. Hjálmar Árnason alþingismaður sagði í samtali við Víkurfréttir að hugmyndir um slíkt safn í Rockville væri aðeins eitt af þeim verkefnum sem verið væri að skoða varðandi uppbyggingu á svæðinu. „Þessi áhugahópur um uppbyggingu her- og flugminjasafns hér á Suðurnesjum hefur hist reglulega í nokkur ár og meðal annars fékk hópurinn úthlutun á fjárlögum til undirbúnings verkinu. Hugmyndin gengur út á að koma þarna upp sögulegu safni sem tengist her- og flugmálum á Íslandi.“ Hjálmar segir að ýmis fyrirtæki og félög í flugiðnaðinum hafi þegar líst yfir áhuga á samstarfi um verkefnið, auk Varnarliðsins.