Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 15. júlí 2003 kl. 11:54

Heppni að Stakkanesið er ekki á hafsbotni með Guðrúnu Gísladóttur KE

Það er talið lán að flottankur sem olli skemmdum á Stakkanesi, sem notað er til að aðstoða við björgun Guðrúnar Gísladóttur KE, nú um helgina skuli hafa lent í botni skipsins, þar sem olíutankur er fyrir, en ekki á botninum undir vélarrúminu. Hefði það gerst er talið líklegt að skipið væri nú á hafsbotninum í Nappstraumen við hliðina á Guðrúnu Gísladóttur KE. Fjallað er um málið í Lofotposten í dag en þar er haft eftir Thorbjörn Hansen frá Selöy Undervannsservice að taug á flottankinum, sem var fullur af lofti, hafi gefið sig með þeim afleiðingum að tankurinn skaust af miklum krafti af um 14 metra dýpi upp á yfirborðið. Tankurinn lenti í botni Stakkanessins og við það kom u.þ.b. fimm metra löng rifa á botninn. Hansen segir að þar sem tankurinn lenti á Stakkanesinu hafi verið olíutankur fyrir innan en litlu hefði mátt muna að tankurinn hafi lent á botni skipsins undir vélarrúminu. Hefði það gerst þá hefði Stakkanesið sokkið á staðnum.

Hansen segir að þar til að taugin gaf sig hafi allt gengið vel. Hann segir að óhappið hafi orðið til þess að farið hafi verið með Stakkanesið til Svolvær þar sem gert verður við skemmdirnar. Reiknað er með því að skipið verði komið aftur að björgunarstaðnum mánudaginn 21. júlí nk. Hansen bætir því við að þessi seinkun komi ekki mjög að sök því verið sé að ná í prammann Nautilus Maxi sem nota eigi við björgunaraðgerðirnar. Hann komi ekki fyrr en á mánudag. Ef allt gangi að óskum í framhaldinu ætti að vera hægt að ná Guðrúnu Gísladóttur KE upp á þremur vikum.

Haft er eftir Guðjóni Jónssyni, sem nú stjórnar aðgerðum fyrir Íshús Njarðvíkur og fjárfestingahópinn GGKE 15 Group, að alls séu átta flottankar á staðnum en aðeins þurfi að nota fimm þeirra til að lyfta skipinu.

Frá þessu er greint á fréttavefnum Skip.is í dag
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024