„Heppinn að vera hérna megin“
Elías Þormarsson, starfsmaður Ístaks fékk 6 tonna steypuplötu á sig í Leifsstöð í gær.
„Ætli ég verði ekki að teljast heppinn, vægast sagt. Þetta var svakalegt,“ sagði Elías Þormarsson, starfsmaður Ístaks en hann varð fyrir því óhappi í gærdag að sex tonna steypuplata lenti á honum við vinnu í Leifsstöð.
Elías segir að búið hafi verið að máta plötuna sem hékk í krananum en þá hafi eitthvað gerst þannig að hún losnaði. „Einn starfsmannanna kallaði á mig og við það sneri ég mér við í hálfhring sem líklega bjargaði mér. Platan lenti samt á mér við upphandlegg og niður eftir líkamanum og þrýsti mér upp að veggnum þar sem ég lá pikkfastur,“ sagði Elías. Þar var hann í 5-6 mínútur og gat sig ekki hreyft á meðan aðrir starfsmenn hjálpuðu til við að koma honum undan þessari stóru og þungu plötu. Hún er um 14 metrar á lengd, 1,20 m. á breidd og 30 sm. þykk og því ekkert gamanmál að fá hana á sig.
„Þeir náðu að lyfta flykkinu af mér og ég slapp á einhvern ótrúlegan hátt. Ég væri ekki hérna meginn ef ég hefði ekki verið svona heppinn og t.d. náð að snúa mér. Annars hefði platan lent á bakinu á mér.“
Elías fór í skoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en gekk þar út stuttu síðar lítið meiddur. „Ég er illa marinn og einhvern veginn allur lurkum laminn og það er að koma út núna,“ sagði Elías sem frábað sér myndatöku og vildi ekki viðtal. Hann sagðist verða frá vinnu í einhvern tíma en vonaðist til að komast aftur á vinnustaðinn þegar hann yrði búinn að jafna sig.
Mynd 1: Sjúkraflutningamenn og vinnufélagar Elíasar hjúkra að honum við slysstað.
Mynd 2: Steypuklumpurinn, 14 metra langur og vegur 6 tonn.
Mynd 3: Hér sést hvernig brotnað hefur neðan úr steypuklumpnum við fallið.
Mynd 4 og 5: Gat kom á þak komuverslunar Fríhafnarinnar í Flugstöðinni við höggið.