Henti sígarettu og velti bílnum
Missti stjórn á bifreið þegar hann var að henda sígarettu út um þaklúgu bílsins
Ökumaður á þrítugsaldri missti stjórn á bifreið sinni í fyrradag, þegar hann var að henda sígarettu út um þaklúgu bílsins með þeim afleiðingum að bíllinn valt tvo hringi og stórskemmdist. Sauma þurfti á annan tug spora í höfuð ökumannsins og allmörg í hægri hendi hans. Við rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á vettvangi kom í ljós að bíllinn hafði senst á þriðja tug metra út fyrir Garðskagaveg, þar sem óhappið varð, og hafnað þar á hjólunum. Maðurinn var með útrunnið ökuskírteini.