„Hélt að þetta væri mitt síðasta“
-segir Helgi Hermannsson sem var um borð í vél Flugleiða sem snúið var við til Portúgal eftir að reykur gaus upp
Hópur Suðurnesjamanna er nú strandaglópar í Faro í Portúgal eftir að flugvél Flugleiða var snúið við stuttu eftir flugtak í kvöld þar sem vélin fylltist af reyk. Helgi Hermannsson úr Keflavík sem er í hópnum sagði í samtali við Víkurfréttir að viðbrögð flugmanna og áhafnar vélarinnar hafi verið til fyrirmyndar. „Við sátum aftarlega í vélinni og stuttu eftir flugtak gaus mikill reykur upp. Mér fannst lyktin eins og af brunnu gúmmíi, eins og slöngur væru að brenna.“ Helgi segir að farþegum hafi brugðið mjög og að margir hafi fengið áfall. „Ég og konan mín erum á ferð með lítið barn og þegar vélinni var snúið við þá leit ég til skiptis á konuna og barnið og hélt að þetta væri mitt síðasta. Þetta var erfið lífsreynsla,“ segir Helgi og bætir við að vélin hafi látið nokkuð illa eftir að henni var snúið við. Helgi vill fyrir hönd hópsins af Suðurnesjum koma á framfæri þakklæti til áhafnar vélarinnar, fararstjóra Úrval Útsýn og Plúsferða og segir hann að mjög fagmannlega hafi verið brugðist við. „Mjög margir voru í áfalli þegar við vorum lent, en okkur var strax boðið upp á áfallahjálp sem margir þáðu. Nú erum við á hóteli og erum að reyna að koma okkur í ró,“ sagði Helgi í samtali við Víkurfréttir í kvöld, en hann býst við því að þau haldi til Íslands á morgun.
Hópur Suðurnesjamanna er nú strandaglópar í Faro í Portúgal eftir að flugvél Flugleiða var snúið við stuttu eftir flugtak í kvöld þar sem vélin fylltist af reyk. Helgi Hermannsson úr Keflavík sem er í hópnum sagði í samtali við Víkurfréttir að viðbrögð flugmanna og áhafnar vélarinnar hafi verið til fyrirmyndar. „Við sátum aftarlega í vélinni og stuttu eftir flugtak gaus mikill reykur upp. Mér fannst lyktin eins og af brunnu gúmmíi, eins og slöngur væru að brenna.“ Helgi segir að farþegum hafi brugðið mjög og að margir hafi fengið áfall. „Ég og konan mín erum á ferð með lítið barn og þegar vélinni var snúið við þá leit ég til skiptis á konuna og barnið og hélt að þetta væri mitt síðasta. Þetta var erfið lífsreynsla,“ segir Helgi og bætir við að vélin hafi látið nokkuð illa eftir að henni var snúið við. Helgi vill fyrir hönd hópsins af Suðurnesjum koma á framfæri þakklæti til áhafnar vélarinnar, fararstjóra Úrval Útsýn og Plúsferða og segir hann að mjög fagmannlega hafi verið brugðist við. „Mjög margir voru í áfalli þegar við vorum lent, en okkur var strax boðið upp á áfallahjálp sem margir þáðu. Nú erum við á hóteli og erum að reyna að koma okkur í ró,“ sagði Helgi í samtali við Víkurfréttir í kvöld, en hann býst við því að þau haldi til Íslands á morgun.