Helmingi fleiri leituðu aðstoðar Fjölskylduhjálpar
Matarúhlutun mun fara fram hjá Fjölskylduhjálp á Suðurnesjum á morgun milli klukkan 13:00 til 16:00 þar sem fjölskyldum sem eru illa staddar verður úthlutað nauðsynjum fyrir áramótin. Anna Ólafsdóttir hjá Fjölskylduhjálp sagði í samtali við Víkurfréttir að mikið af fólki hefði leitað sér aðstoðar fyrir jólin en alls hafi um 700 fjölskyldur þurft á aðstoð að halda. Í fyrra voru þær helmingi færri svo ljóst er að ástandið er áhyggjuefni fyrir svæðið sem slíkt.
Eins og flestir vita var brotist inn í húsnæði Fjölskylduhjálpar skömmu fyrir jól og Anna segir að ekkert sé enn komið í ljós í því máli og að henni þyki það afar leitt. „Það er varla hægt að leggjast lægra en þetta og erfitt fyrir okkur að hefja nýja árið svona,“ sagði Anna að lokum.