Helgvíkurálver: Umhverfisráðherra lýsir furðu sinni
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra lýsir furðu sinni á því að ábyrgir sveitarstjórnarmenn gefi út framkvæmdaleyfi fyrir álver í Helguvík áður en allar upplýsingar og forsendur liggja fyrir. Hún segir þetta vafasama stjórnvaldsákvörðun og sjónarspil. Þetta kemur fram í fréttum Ruv nú siðdegis.
Bæjarstjórnarfundir í Reykjanesbæ og Garði hófust klukkan 17:30 í dag en fyrir fundunum lá að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna álvers í Helguvík. Bæjarstjórn Garðs samþykkti með 6 atkvæðum gegn 1 að veita byggingarleyfi vegna álversins í Helguvík. Einn fulltrúi meirihlutans í bæjarstjórninni greiddi atkvæði gegn málinu.
Bæjastjórnin í Reykanesbæ samþykkti einnig framkvæmdaleyfið nú fyrir stundu með 10 atkvæðum. Einn bæjarfulltrúi sat hjá.
Umhverfisráðherra vísar til þess að óvissa ríki um virkjanakosti og flutningsleiðir raforku. Einnig til þess að Skipulagsstofnun telur að liggja þurfi fyrir hvort álverið fái losunarheimildir áður en framkvæmdaleyfi er veitt.