Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Helguvíkurhöfn: Engin viðbrögð frá samgönguráðherra
Fimmtudagur 17. desember 2009 kl. 13:09

Helguvíkurhöfn: Engin viðbrögð frá samgönguráðherra


Bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ kalla eftir svörum frá ríkisvaldinu um það hvort ríkið ætli að koma að hafnarframkvæmdum Helguvík eða ekki. Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir að ítrekað hafi verið óskað eftir fundi með samgönguráðherra. Honum hafi margítrekað verið boðið að koma og skoða hafnarframkvæmdirnar í Helguvík en ekki séð sér fært að mæta. „Það er mjög miður vegna mikilvægi þessara framkvæmda,“ segir Böðvar.
 
Þetta kom fram í máli Böðvars á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn þar sem fundargerðir Atvinnu- og hafnarráðs voru til umfjöllunar. Ráðið hefur skorað á fjármálaráðherra og samgönguráðherra að beita sér fyrir því að breyta hafnalögum eða setja sérlög um aðkomu ríkisins að hafnargerð í Helguvík. Magnea Guðmundsdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, vakti máls á því á bæjarstjórnarfundinum að slíkt hefði verið gert vegna Landeyjarhafnar, þannig að fordæmið er fyrir hendi.

Í október síðastliðnum kölluðu bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ eftir svörum frá ríkisvaldinu hvort það ætlaði að koma að þeim viðamiklu hafnarframkvæmdum sem hafnar eru í Helguvík og taldar eru nauðsynlegar vegna álversins. Haft var eftir samgönguráðherra í fjölmiðlum að ekkert fjármagn væri eyrnamerkt framkvæmdinni enda kæmi ríkið ekki að hafnarframkvæmdum sem þessum. Vísaði ráðherra í hafnarlög frá 2003 í því sambandi.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Helguvíkurhöfn.