Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Helguvíkurálver að komast í höfn
Laugardagur 30. október 2010 kl. 20:25

Helguvíkurálver að komast í höfn

Hindranir í vegi þess að álvers- og virkjanaframkvæmdir vegna Helguvíkur komist á fullt skrið falla nú hver af annarri og segjast aðstandendur nú bjartsýnir á að málið komist í höfn innan skamms tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Smíði álversins hefur verið í hægagangi undanfarin tvö ár, af mörgum ástæðum. Ákvörðun Norðuráls um að stefna að fjórðungi minna álveri en áður léttir á þrýstingi um virkjanaframkvæmdir. Ný borhola við Reykjanesvirkjun þykir mikilvægur áfangi í að eyða óvissu um orkuöflun, og menn sjá hilla undir lausn í skipulagsmálum gagnvart sveitarfélögum. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og síðan á visir.is

Runólfur Ágústsson, verkefnisstjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum um Helguvík, segir að menn séu að vinna mjög hratt þessa dagana og sú vinna gangi vel.

„Þessu máli hefur miðað mjög vel áfram undanfarna tvo mánuði og við erum bjartsýn á að ljúka þessu innan tiltölulega skamms tíma,“ segir Runólfur.

Forstjóri Norðuráls, Ragnar Guðmundsson, sagði á ársfundi Vinnumálastofnunar í gær að framkvæmdir vegna Helguvíkurálvers myndu skapa tíu þúsund ársverk og skila 12 milljarða tekjum á ári til hins opinbera.

Spurður hvort framkvæmdir séu að fara á fullt svarar Ragnar því til að of snemmt sé að segja til um það á þessari stundu. Unnið sé að því hörðum höndum og með samstilltu átaki sé það hægt. En þá verði allir að spila með enda sé það heilmikið átak að koma þessu í réttan farveg.

„Það hafa auðvitað verið ýmsar tafir og vantað kannski svona samstillingu aðila í þessu. Það er alveg ljóst. En vonandi erum við að ná þessu saman núna og ég heyri ekki annað en að menn hafi áhuga á að klára þetta fyrr en seinna,“ segir Ragnar.

Þegar spurt er nánar hve stutt gæti verið í niðurstöðu svarar Runólfur að menn hafi áður brennt sig á að lofa dagsetningum. Ragnar kveðst heldur ekki vilja nefna neinar tímasetningar.

„Við erum bara að vinna í þessu á fullu og vonandi gengur það hratt og vel,“ segir Ragnar Guðmundsson.

Heimild: www.visir.is