Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Helguvíkurál: Framleiðsla hefjist 2010 til 2015
Laugardagur 14. maí 2005 kl. 12:57

Helguvíkurál: Framleiðsla hefjist 2010 til 2015

Fulltrúar Norðuráls ehf. á Grundartanga, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja hf. undirrituðu í gær samkomulag um könnun á möguleikum á rekstri álvers í Helguvík í landi Reykjanesbæjar. Í framhaldi af undirritun samkomulagsins mun strax fara af stað frekari könnun á orkuöflun, umhverfisskilyrðum og aðstöðu fyrir álver í Helguvík. Verði niðurstaða slíkra athugana jákvæð, er gert ráð fyrir að álframleiðsla hefjist í Helguvík í fyrsta lagi 2010 en í síðasta lagi 2015, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ, Century Aluminium og Hitaveitu Suðurnesja.

Áhugavert sóknarfæri fyrir Reykjanesbæ og nágrannabyggðir

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að um sé að ræða afar áhugavert sóknarfæri fyrir Reykjanesbæ og nágrannabyggðir. „Reynist niðurstöður umhverfisathugana og orkuöflunar jákvæðar, verður okkur ekkert að vanbúnaði við þetta stórverkefni. Ég ítreka þó að slík vinna er framundan áður en skýr ákvörðun liggur fyrir. Þetta verkefni yrði gríðarlegur styrkur fyrir byggðararlögin hér því það myndi stuðla að mun fleiri og fjölþættari vel launuðum störfum. Að sama skapi mun stór hluti þeirrar umhverfisvænu orku sem hér verður til nýtast svæðinu beint.

Áhersla okkar á Helguvíkursvæðið mun greinilega skila sér margfalt til baka í komandi framtíð.  Þetta verkefni gæti komið í kjölfar undirbúnings FL group við að flytja allt eldsneyti sitt í gegnum Helguvík.

Samkvæmt opinberum viðurkenningum er álfyrirtækið Norðurál í hópi best reknu fyrirtækja í álvinnslu í heiminum, með tilliti til áherslu á mengunarvarnir og öryggi starfsmanna. Það verður því ánægjulegt að vinna að þróun þessa verkefnis með þeim,” segir Árni.

Hlutverk Hitaveitunnar að tryggja næga orkuöflun

Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir að hlutverk Hitaveitunnar sé að tryggja næga orkuöflun fyrir verkefnið og leita samstarfs við Landsnetið um flutning raforkunnar. „Við erum nú þegar samstarfsaðili við Norðurál vegna stækkunar álversins á Grundartanga og höfum átt mjög gott samstarf við Orkuveitu Reykjavíkur vegna þess verkefnis. Við væntum áframhaldandi samstarfs við þá í tengslum við Helguvík, auk Landsvirkjunar og fleiri aðila. Við lítum til þessa verkefnis sem tækifæris til arðbærrar virkjunar, sem efli atvinnulífið og stækki markaðssvæði fyrirtækisins”, segir Júlíus.

Yrði fyrsta álverið sem Century reisir frá grunni

Craig A. Davies, forstjóri og stjórnarformaður Century Aluminum, sem á Norðurál, bendir á að þetta yrði fyrsta álverið sem Century reisir frá grunni. „Við teljum að Ísland henti mjög vel til að framfylgja þeirri stefnu okkar að auka hlutdeild fyrirtækisins í samkeppnishæfum áliðnaði. Við höfum verið afar ánægðir með reynslu okkar af starfseminni á Íslandi og þá sérstaklega hollustu starfsfólks og ánægjuleg samskipti við íslensk orkufyrirtæki, banka og stjórnvöld,” segir Davies.

Mynd: Frá framkvæmdum í Helguvík. Nú er kannaður möguleiki á rekstri álvers í Helguvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024