Helguvík frestast ekki
„Ég átti fund með Logan Kruger, forstjóra Century Aluminium og Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls, um framtíð álversframkvæmda í Helguvík. Þau afar ánægjulegu tíðindi eru af því að segja að ekki verður um frestun á framkvæmdum að ræða. Uppbygging álversins heldur áfram af fullum krafti og allt stefnir í að í haust verði á fjórða þúsund manns að vinna við þær og tengd verk,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
„Þeir félagar sögðu mér jafnframt á fundi okkar að nú þegar hefði um 100 milljónum dala verið varið í verkið og um 100 manns eru í vinnu á svæðinu nú þegar. Frá því verður ekki hlaupið. Verkið er á áætlun og álverið mun rísa á áætluðum tíma. Það eru afar góðar fréttir fyrir atvinnulífið og ég tala ekki um mannvirkja- og þjónustugeirann. Þar er áfallið mest og þörfin brýnust á framkvæmum.
Með Helguvíkurálverinu koma um 400 milljarðar króna inn í hagkerfið. Allt erlend fjárfesting. Það kemur því á besta tíma. Í fyrra sumar þegar ég tók ásamt nokkrum öðrum skóflustunguna af nýju álveri í Helguvík óraði mann auðvitað ekki fyrir hve mikilvægt væri að fá þessa framkvæmd inn í hagkerfið og athafnalífið á Suðurnesjum. Nú er komið í ljós að sá sólríki maí dagur sem við stigum á skófluna er nú einn sá bjartasti á því erfiða ári sem leið.
Á síðustu tveimur árum hef ég fundað oft og reglulega með þeim Logan og Ragnari og nú ríður á að fjárfestingasamningurinn gangi eftir og verkið gangi hratt fram,“ sagði Björgvin.