Helgu hrósað fyrir rauða hárið
- Sigraði í keppninni um rauðhærðasta Íslendinginn árið 2016
Helga Guðrún Jónsdóttir, 11 ára stúlka úr Reykjanesbæ, var á dögunum kosin rauðhærðasti Íslendingurinn á Írskum dögum á Akranesi. Helga var mjög ánægð að hafa unnið keppnina en að launum fékk hún ferð til Dublin á Írlandi fyrir tvo og hárvörur frá Eleven. Hún hefur ekki enn ákveðið hverjum hún ætlar að bjóða með sér til Dublin eða hvenær ferðin verður farin, en er hún afskaplega spennt fyrir ferðalaginu.
Helga hefur í gegnum tíðina oft verið stoppuð úti á götu af fólki sem dáðst hefur að rauða hárinu hennar og jafnvel spurt um leyfi til að fá að snerta það. Fjölskyldu Helgu hefur ávallt fundist það sérstakt hve oft hún er stoppuð, en fundist voðalega gaman að heyra hrósin sem hún hefur fengið fyrir hárið sitt. Helga sjálf er rosa ánægð með hárlitinn sinn og finnst hann voða fallegur.
Alls voru keppendur í keppninni um rauðhærðasta Íslendinginn 34 og fór hún þannig fram að teknar voru myndir af þeim öllum og svo biðu þau úrslitanna. Biðin var að sögn Helgu ansi löng og var hún glöð þegar tilkynnt var að hún hefði sigrað.
Hluti keppenda saman kominn í keppninni um rauðhærðasta Íslendinginn árið 2016.