Helena hlaut hvatningarverðlaunin
Fræðsluráð Reykjanesbæjar efnir árlega til hvatningarverðlauna fyrir einstaka kennara, kennarahópa og starfsmenn í leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hvatningarverðlaunin voru veitt í 10. sinn í gær.
Verðlaunin eru veitt fyrir starf eða verkefni sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni. Dómnefnd er skipuð kjörnum fulltrúum fræðsluráðs og áheyrnarfulltrúum.
Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á gróskumiklu starfi skólanna og stuðla að nýbreytni og þróunarstarfi. Verðlaunin eru viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu nemenda og foreldra og staðfesting á því að skólinn sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.
Í ár var það Helena Rafnsdóttir sem hlaut hvatningarverðlaunin. Hún er deildarstjóri í Njarðvíkurskóla og hefur stýrt verkefninu Leið til læsis, logos og aðrar skimanir á lestri. Verkefnið felur í sér að bæta lestrarkunnáttu grunnskólanema og þeirra sem eiga í erfiðleikum með lestur.
Heiða Ingólfsdóttir, sérkennslustkóri í leikskólanum Holti hlaut einnig viðurkenningu. Hún heldur utan um félagsfærniverkefnið CAT í leikskólanum. Jafnframt hlaut lið Holtaskóla í Skólahreysti viðurkenningu fyrir frábæran árangur sinn í keppninni í ár. Skólinn sigraði í keppninni í ár og hefur verið leiðandi í þessari nýju íþróttagrein á undanförnum árum.
„Að loknu mjög góðu skólaári í skólum Reykjanesbæjar þá er mjög ánægjulegt að skólasamfélagið skuli veita eftirtekt því góða starfi sem unnið er í skólum bæjarins. Við erum með afar vel mannaða skóla sem skila góðu starfi,“ segir Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar sem stýrði athöfninni.