Heldur að glæðast hjá línubátunum
Heldur er farið að glæðast hjá þeim línubátum sem róa á svæðinu frá Reykjavík suður um til Grindavíkur. Síðustu daga hefur gengið vel hjá bátunum og hafa nokkrir þeirra verið að koma drekkhlaðnir að landi.
Til að mynda var Þórkatla GK í gær komin með rúm 20 tonn í fjórum sjóferðum, en hún hefur landað í Sandgerði og Hafnarfirði. Hópsnes GK var með 27 tonn í 4 ferðum og mest með 11,6 tonn í sjóferð.
Óli Gísla GK var með 14 tonn í tveimur ferðum, mest 7,1 tonn. Sama dag og Hópsnesið GK kom til lands með tæpu 12 tonnin kom Daðey GK til Sandgerðis með 10,1 tonn, þar af tæp 7 tonn af þorski. Reyndar gerði Daðey GK enn betur dafinn eftir þegar hún kom til hafnar með 12,8 tonn. Hildur GK var með 12 tonn í tveimur ferðum mest 7,2 tonn.
Þetta kemur fram á vefnum www.aflafrettir.com en þar má sjá ýmsa lista yfir aflabrögð á hverjum tíma, m.a. nýjan lista yfir 30 aflahæstu krókabátana.
Mynd úr safni.