Héldu að ljósmyndari væri með bílsprengju og ætlaði að sprengja sig við aðalhlið Keflavíkurflugvallar
Bandarískir hermenn óttuðust að bifreið ljósmyndara Víkurfrétta væri hlaðin bílsprengju sem væri beint gegn aðalhliði Varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Bifreið Víkurfrétta var lagt í vegarkanti á Hafnavegi, nokkra tugi metra frá gatnamótum Hafnavegar og vegarins sem liggur upp að aðalhliði Keflavíkurflugvallar. Eftir að hafa ekið herlögreglubíl framhjá bíl ljósmyndarans var lögreglan á Keflavíkurflugvelli send á staðinn.
Einn lögreglumaður var í bifreiðinni og spurði hann ljósmyndara hvaða erindi hann ætti þarna. Jafnframt bað hann ljósmyndarann að hafa sig á brott. Ljósmyndarinn sagðist hins vegar þurfa að ná mynd á þessum stað af flutningum í tengslum við kvikmynd Clint Eastwood. Var ljósmyndarinn þá beðinn um að færa sig um 50 metra leið.
Þegar ljósmyndarinn óskaði skýringa fékk hann þau svör að hermenn í hliðinu héldu að bifreiðin væri hlaðin bílsprengju sem ætti að sprengja við aðalhliðið.
Ljósmyndari Víkurfrétta varð við tilmælum lögreglunnar og færði sig um þá metra sem óskað var eftir. Stöðugt var fylgst með bifreiðinni og herlögreglubíll ók aftur framhjá henni. Víkurfréttir náðu þeim myndum sem þurfti að ná af skriðdrekum sem notaðir verða í kvikmyndinni Flags of our Fathers.
Víkurfréttir fordæma tíð afskipti Varnarliðsins af störfum blaðamanna og ljósmyndara Víkurfrétta utan girðingar varnarstöðvarinnar. Skiptir þá engu hvort um er að ræða skilgreint varnarsvæði eða ekki. Skemmst er að minnast þess að herlögreglumenn vopnaðir skotvopnum gerðu athugasemdir við störf ljósmyndara Víkurfrétta við kirkjugarðinn í Keflavík.
Mynd: Herlögreglubíll ekur framhjá ljósmyndara í seinna skiptið í dag. Ljósmynd: hbb