„Held að þetta sé bara byrjunin“
Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja segir að fylgst hafi verið náið með umræðu um Varnarliðið síðustu mánuði og að uppsagnirnar komi honum ekki á óvart. „Við hjá stéttarfélögunum hér á Suðurnesjum höfum fylgst mjög náið með umræðunni um varnarliðið síðustu mánuði og höfðum varað við þessu. Því miður höfðum við rétt fyrir okkur. Varnarsamningurinn er greinilega hættur að virka, þetta eru orðnar einhliða aðgerðir.“
Aðspurður segir Guðbrandur að Verslunarmannafélag Suðurnesja muni fylgjast mjög náið með framvindu mála. „Verslunarmannafélagið mun að sjálfsögðu fylgjast mjög náið með því að rétt verði að öllum hlutum staðið. Einnig er bráðnauðsynlegt að fá fram umræðu um framhaldið. Þar hafa fjölmargir hlutverki að gegna og ekki síst ríkisvaldið,“ segir Guðbrandur og bætir við. „Það er kominn tími til að horfast í augu við það sem þarna er að gerast og því miður held ég að þetta sé bara byrjunin.“
VF-ljósmynd/Hilmar Bragi: Varnarliðsmenn á Keflavíkurflugvelli.