Hekla á Fitjum: Glæsilegur bílafloti vegna heimsfrumsýningar
Hann var sérlega glæsilegur bílaflotinn sem renndi í hlað hjá Heklu á Fitjum í morgun. Þangað voru komnir 50 spánýir VW bílar, sérinnfluttir til landsins vegna heimsfrumsýningar á nýrri kynslóð VW Golf sem fram fer hér á landi í september.
Alls verða fluttir inn 200 nýjir VW bílar af þessu tilefni og verða um 50 þeirra staðsettir hjá Heklu á Fitjum til afnota fyrir erlenda blaða- og fréttamenn sem hingað eru væntanlegir vegna kynningarinnar. Von er á 1500 – 2000 frétta- og blaðamönnum frá 50 löndum vegna þessa enda um stórviðburð að ræða.
Að sögn Kjartans Steinarssonar hjá Heklu á Fitjum er þetta stærsta bílasýning sem haldin hefur verið hér á landi en hún mun standa yfir í þrjár vikur. Fastlega megi reikna með að atburðurinn verði mikil landkynning fyrir Ísland en náttúrufegurð landsins var meginástæða staðarvalsins.
Allir helstu stjórnendur Volkswagen verða viðstaddir heimsfrumsýninguna og verða alls um 200 bílar fluttir til landsins vegna kynningarinnar. Ríflega 100 þeirra verða af sjöttu kynslóð VW Golf og einnig verða fluttir inn í tengslum við viðburðin um 40 VW Pheaton lúxusbílar, VW Touareg jeppar og VW Passat R36 ásamt fleiri gerðum Volkswagen.
Eins og áður segir er von á 1500 – 2000 blaða- og fréttamönnum vegna frumsýningarinnar á nýja Golfinum í september. Þeir koma hingað í 80 manna hópum til landsins, frá 8. til 26. september, og staldrar hver hópur hér við í tvo daga. Komið verður upp glæsilegri fræðslu- og sýningaraðstöðu í Bláfjöllum og þaðan verður farið í reynsluakstur á nýju bílunum um næsta nágrenni, að Gullfossi og Geysi, Kerinu, Nesjavöllum og Bláa lóninu, svo aðeins nokkrir staðir séu nefndir.
VF-mynd/elg: Á Fitjum í morgun. Komið var með bílana á nokkrum flutningabílum.