Heitum potti stolið við sumarhús á Suðurnesjum
Lögreglunni á Suðurnesjum var í fyrradag tilkynnt að heitum potti hefði verið stolið, en hann hafði verið staðsettur við sumarbústað.
Um er að ræða 4 – 6 manna pott, af gerðinni Softub T-220. Nýr kostar einn slíkur milli sjö og átta hundruð þúsund krónur, en þessi var aðeins kominn til ára sinna. Eigandi sumarbústaðarins varð var við að heiti potturinn væri horfinn þegar hann var að huga að sumarhúsi sínu. Ljóst er að tvo hefur þurft til að fjarlægja pottinn, svo stór sem hann er. Lögreglan rannsakar málið.