Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Heitavatnslögn tærðist utanfrá
Fimmtudagur 3. desember 2009 kl. 14:19

Heitavatnslögn tærðist utanfrá

Heitu vatni var aftur hleypt á aðveituæðina í Garð og Sandgerði á öðrum tímanum í nótt en þá höfðu þessi tvö sveitarfélög verið án hitaveitu í um hálfan sólarhring. Að sögn Víðis Jónssonar hjá HS Veitum er talið að gat hafi komið á einangrunarkápu á 300 mm einangraða stálpípu þannig að utanaðkomandi vatn komst að pípunni. Þegar það gerist tærast lagnir á stuttum tíma. Er talið að grjót eða steinn hafi legið upp við hólkinn og sargað á hann gat með tímanum.


Áður en hægt var að skipta um hluta leiðslunnar þurfti að tæma hana á allt að tveggja kílómetra kafla. Það tók nokkuð langan tíma því eins og starfsmenn hitaveitunnar segja, þá virðist geta lekið endalaust úr rörunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Suðuvinnu lauk kl. 23 í gærkvöldi en skipt var um 1,5 metra úr lögninni. Þá var vatni aftur hleypt á lögnina og hún lofttæmd. Vinnu á svæðinu lauk síðan kl. 05 í morgun. Íbúar í Garði og Sandgerði hafa eflaust fengið „kakólitað“ hitaveituvatn í morgun, sem er eðlilegt eftir að vatn fer af eins og í gær. Þá losnar um óhreinindi í lögnum sem fólk síðan losnar við með því að láta vatnið renna í einhvern tíma.

Mynd: Frá viðgerðum á Miðnesheiði í gærdag. Ljósmynd: Víðir Jónsson