Heimsþekkt leikkona kemur á tónlistarhátíð á Ásbrú
Leikkonan Tilda Swinton, sem leikið hefur í fjölmörgum þekktum bíómyndum og er heimsþekkt, hefur boðað komu sína á tónlistarhátíðina All Tomorrows Parties sem fram fer á Ásbrú dagana 28. til 29. júní. Fréttablaðið greindi frá þessu fyrir helgi.
Samhliða tónlistarhátíðinni þá fara fram bíósýningar og verður þeim stjórnað af þeim Jim Jarmusch og Tildu Swinton. Koma Swinton og þátttaka hennar í hátíðinni teljast til stórtíðinda enda er leikkonan mikilsmetin bæði innan leiklistarinnar og tískuiðnaðarins.
„Ég varð mjög ánægður þegar hún hafði samband en þetta kom mér ekki mjög á óvart því það hefur verið gríðarlegur áhugi á hátíðinni. Tónlistarvefsíðan Pitchfork hefur meðal annars fjallað mikið um hana,“ segir Suðurnesjamaðurinn Tómas Young, skipuleggjandi hátíðarinnar, í samtali við Fréttablaðið. Einnig er greint frá komu Swinton á heimasíðu NME sem er virt tónlistartímarit.
Leikkonan verður viðstödd hátíðina og gistir á svæðinu líkt og aðrir gestir hátíðarinnar og eru því líkur á að hátíðargestir muni rekast á stjörnuna á vappi um Ásbrú.
Stutt er í hátíðina og viðurkennir Tómas að enn þurfi að huga að ýmsu smálegu. „Nú er „crunch time“. Síminn stoppar ekki. Við höfum haft langan undirbúningstíma en það er auðvitað fullt sem þarf að gera og græja á síðustu metrunum,“ segir hann að lokum í samtali við Fréttablaðið.
Hátíðin fer fram um næstu helgi og er miðasala í fullum gangi. Nick Cave and the Bad Seeds eru meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni sem einnig er haldin víða um heim. Hér má finna frekari upplýsingar um hátíðina.