Heimsókn frá umboðsmanni barna til Reykjanesbæjar
Umboðsmaður barna og starfsfólk embættisins kíktu í heimsókn til Reykjanesbæjar sl. miðvikudag. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri tók á móti starfsfólki embættisins í ráðhúsi Reykjanesbæjar þar sem þau fengu kynningu á starfsemi barnaverndar, barna- og fjölskylduteymis og teymis Alþjóðlegrar verndar. Því næst voru nokkrir skólar heimsóttir en komið var við í Stapaskóla, Háaleitisskóla, tónlistarskólanum og leikskólanum Tjarnarseli. Einnig var komið við í 88 húsinu og Fjörheimum þar sem boðið var upp á kynningu á starfsemi hússins og framtíðarsýn þess.
Þá fengu umboðsmaður og starfsfólk embættisins kynningu á nýrri menntastefnu Reykjanesbæjar til ársins 2030, innleiðingu Barnasáttmálans í Reykjanesbæ og verkefninu Réttindaskólar og -frístund UNICEF sem innleitt hefur verið í Háaleitisskóla. Umboðsmaður ræddi við börn í skólunum og sagði þeim meðal annars stuttlega frá embættinu og störfum umboðsmanns barna og hvaða hlutverki umboðsmaður gegnir fyrir börn.
Helgi Arnarson, fræðslustjóri Reykjanesbæjar kynnti Umboðsmanni barna m.a. nýja menntastefnu Reykjanesbæjar.