Heimir ályktar um Varnarliðsmál
Heimir, félag ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hefur samþykkt ályktun þar sem skorað á er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar um að beita sér af fullum þunga fyrir pólitískri lausn í komandi viðræðum um veru Varnarliðsins hér á landi. Í ályktun Heimis segir: „Sé ákvörðun um brottflutning Varnarliðsins tekin með skömmum fyrirvara mun slíkt valda upplausn í atvinnumálum á Suðurnesjum sem erfitt er að bregðast við. Brottflutningur flughersins gæti einnig grafið undan stuðningi almennings á Íslandi við utanríkisstefnu Bandaríkjamanna. Þá er ljóst að varnir landsins skerðast verulega og pólitísk samskipti ríkjanna geta borið skaða af. Staða heimsmálanna breytist ört og óljóst er hvert mikilvægi Íslands verður í framtíðinni. Vera Varnarliðsins með óbreyttum hætti er því mikilvæg fyrir sameiginlega hagsmuni ríkjanna tveggja.“