Heimilistæki og húsbúnaður í hrúgum í Kölku
- samfélagið á Suðurnesjum að rétta úr kútnum?
„Samfélagið er greinilega á uppleið því það hefur verið mikið að gera hjá okkur að undanförnu og síðustu mánuði,“ sögðu starfsmenn Kölku við Víkurfréttir. Tugir tonna af heimilistækjum og húsbúnaði hefur streymt inn í Kölku til eyðingar.
„Við erum að fylla á hverjum degi 5 til 6 (þúsund lítra) kör af heimilistækjum, sjónvarpstækjum, tölvum, ískápum og slíkum tækjum. Þetta eru oft tugir tækja á dag. Við höfum stundum heyrt hjá þeim sem flytja þetta frá okkur að þetta sé meira en í Reykjavík,“ sögðu starfsmenn Kölku og bættu því við að auðvelt væri að greina uppsveiflu á Suðurnesjum hjá mörgum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum.
Ekkert gjald er tekið þegar heimilistækjum er skilað og þá er tekið við allt að 3 pokum af heimilissorpi í ferð. Gjald er fyrir húsbúnað á borð við sófa (875 kr.) og og baðker kostar 1.750 kr. svo dæmi sé tekið. Gjaldskrá fyrir losun er að finna á kalka.is.
Það hefur verið fjör í Kölku undanfarna mánuði.